Listflug fyrir byrjendur

flugkomu FMFA 2007
Melgerðismelum

Flugmaður og aðstoðarmaður gangsetja módel í rásboxi og bíða tilbúnir þar til röðin er komin að þeim.  Þegar flugmaður er kallaður til flugs heldur aðstoðarmaður á módeli út á braut og setur það niður þar sem það er tilbúið að taka á loft.  Flugmaður má þenja mótor módelsins til að hita hann, en allar stillingar á mótor ættu að vera frá gengnar.  Þegar flugmaður er tilbúinn, þá sleppir aðstoðarmaður módelinu og það á þá að standa eitt og sér á brautinni.  Aðstoðarmaður má ekki koma við módelið nema til að ræsa mótor þess ef flugmaður er búinn að kalla flugtak.

Æfingar eru gerðar í þeirri röð sem hér er sýnt og flugmaður eða aðstoðarmaður hans kallar hverja æfingu fyrir sig til dómara ásamt því hvenær hún byrjar og hvenær hún endar.  Til dæmis myndi flugmaður eða aðstoðarmaður kalla „FLUGTAK OG BEYGJA – BYRJAR“ og síðan „ENDAR“ þegar módelið er komið framhjá í flugi undan vindi. Mikilvægt er að æfingar séu gerðar í það mikilli hæð að flugmaðurinn telur sig geta náð módelinu úr vandræðum ef eitthvað kemur uppá, en þó ekki það hátt að dómarar geti ekki séð æfingarnar og dæmt þær.

Þegar öllum æfingum er lokið drepur flugmaður á mótor módelsins og aðstoðarmaður tekur það og ber það út af braut.

1: Flugtak, 270° beygja og beint flug undan vindi Stig = 20
 

Módel stendur á flugbraut og flugmaður utan brautar.  Aðstoðarmaður sér til þess að módel fari ekki af stað fyrr en ætlað er, og má gangsetja mótor aftur ef hann stöðvast.  Flugtak sem eðlilegast upp í vindinn beint og jafnt.  Endar í u.þ.b. 10-20 metra hæð.

Módel tekur 90° beygju frá áhorfendum og síðan 270° beygju svo það flýgur nú undan vindi í gagnstæða stefnu við upphafi.  Módel má hækka flugið í beygjunni.  Mikilvægt er að  270° beygjan sé vel hringlaga.

Módel flýgur í 30-50 metra hæð yfir braut í beina stefnu undan vindi án þess að hækka eða lækka.

 
2: Ferkantaður umferðarhringur Stig = 10
  Módel tekur umferðarhring í um 30-50 metra hæð með 90° beygjum án þess að missa eða auka hæð.  
3: Flöt átta Stig = 10
  Módel beygir frá braut áður en það kemur að flugmanni og tekur síðan flata áttu þar sem það beygir í víðan hring að braut fyrst hlémegin og síðan kulmegin.  Mikilvægt er að báðir hringir séu jafnir og vel hringlaga og að módelið missi ekki hæð.  
4: Vængbeygja eða ofrisbeygja Stig = 10
 

Módel flýgur framhjá flugmanni undan vindi og tekur vængbeygju eða ofrisbeygju  til að snúa við og heldur áfram í sömu hæð og áður en í gagnstæða stefnu.   

Vængbeygja fer þannig fram að módelið stefnir upp við 30-40 gráður og tekur síðan víða beygju frá áhorfendum þar til það beinist aftur niður við sama horn og áður.  Þegar módelið  er komið í þá hæð sem það var í þegar æfingin byrjaði, þá réttir flugmaður af flugið svo  módelið fljúgi beint.

Ofrisbeygja er framkvæmd þannig að módelinu er beint upp um 90° þar til það hættir að hækka sig, en þá er hliðarstýri notað til að kasta stélinu til svo það stefni niður aftur.  Þegar módelið  er komið í þá hæð sem það var í þegar æfingin byrjaði, þá réttir flugmaður af flugið svo  módelið fljúgi beint.

 
5: Lykkja eða velta  Stig = 10
 

Módel flýgur upp í vind og tekur eina lykkju eða eina veltu.   Mikilvægt er að lykkjan sé vel stór og jöfn og að inngjöf sé rétt notuð.  Ef módel þarf, þá má það taka grunna dýfu áður en lykkjan er tekin, til að auka hraðann.

Velta þarf að vera jöfn og eins bein og mögulegt er, en þó er ekki dregið frá þó hún sé ekki algerlega um langás módelsins.  Ef módel þarf, þá má stefna því aðeins upp á við áður en veltan  er tekin, til að módelið komi út úr veltunni í láréttu flugi.

 
6: umferðarhringur og snertilending Stig = 20
  Módel tekur umferðarhring og stefnir að lendingu.  Módelið snertir braut fyrir framan flugmann, en þá gefur hann aftur í og tekur á loft aftur eftir að módelið hefur runnið a.m.k. þrjá metra á hjólunum. Mikilvægt er að módelið renni beint og taki á loft aftur beint upp í vindinn, en beygi ekki til hægri eða vinstri fyrr en æfingunni er lokið.  Ef módelið missir mótor í snertilendingunni, þá má aðstoðarmaður setja það aftur í gang til að flugmaður geti reynt við  síðasta atriðið.  
7: Umferðarhringur og lending Stig = 20
  Módel tekur umferðarhring og lendir á braut fyrir framan flugmann.