Uppi á lofti á Grísará hafði þessi undarlega tunna gegnt hlutverki vatnskúts um áratugaskeið. Þegar hlutverki hennar uppi á loftinu var lokið fóru módelmenn að rýna í þessa merkilegu tunnu og kom í ljós eftir nokkra rannsóknarvinnu að þarna er um að ræða eldsneytistunnu, trúlega frá breska hernum. Var tunnunni því snarað upp í bíl og færð Flugsafni Íslands að gjöf. Til bráðabirgða var henni fundinn staður við braggann, sem er inni á safninu og var ekki annað að sjá en hún færi vel þar, enda komin til föðurhúsanna eftir áratuga fjarveru.
Á myndinni er starfsmaður Flugsafns Íslands, Hjörtur Steinbergsson, að veita tunnunni viðtöku.