Það virtist ekki mikið gerast í dag, en þó púluðum við allan daginn. Við settum músanet á undirstöðuna sem var komin, festum niður gólfbitum (sem sumir voru svo skakkir að það lá við að hægt væri að nota þá sem spaða framan á flugvélar), settum einangrun í gólfið og klæddum yfir með plasti.
Kristinn Ingi kom og negldi nokkra nagla og Sigurður Rúnar bar fúavörn á helminginn af öllu timbrinu á tvöföldum hraða. Eins og sést, þá voru nokkrar skemmdir á timbrinu, aðallega vegna lélegrar pakkningar.