Flugkoman 2007 fór vel fram þetta árið þó að veðurguðirnir hafi ekki alveg verið samvinnufúsir til að byrja með.
Vegna smá úrkomu og lágra skýja var ekki hægt að byrja flug klukkan níu eins og áætlað var. Það var ekki fyrr en rúmlega 10 sem rofaði nægilega til til að hægt væri að senda módel í loftið. Þá voru allmargir hugrakkir módelmenn mættir á svæðið og tilbúnir að setja saman. Sumir höfðu reyndar komið daginn áður og tjölduðu við Hyrnuna til að missa ekki af neinu.
Um hálf ellefu voru komnir nokkrir tugir módela á svæðið og mikið flogið. Dagskráin sem við höfðum útbúið fór aldrei í gang vegna þess að ekki var hægt að byrja á réttum tíma, en það gerði ekki mikið til, því allir fengu tækifæri til að fljúga og þó nokkur sýningarflug voru flogin. Mesta athygli vakti þotan hans Kalla. Þegar hann tók á loft með fulla inngjöf fór kliður um áhorfendaskarann. Hljóðið í módelinu var svo magnað að fólk talaði um það lengi.
Önnur módel sem vöktu athygli voru lisfflugsvélarnar hans Þrastar, hver annarri stærri, CAPinn hans Reynis, sem flaug verulega flott listflug og listflugsvélin hans Hjartar, sem hvarf í reykjarmekki hangandi á spaðanum.
Nokkrir nýliðar flugu á Melunum þetta árið og var framganga þeirra sérlega ánægjuleg. Heimamennirnir Teddi og Þórir flugu treinerunum sínum og Pétur (a.k.a. Kölski) flaug hinu margfræga Kameldýri af stakri snilld.
Áhorfendur voru álíka fjölmennir og í fyrra og Guðfinna hans Didda og fjölskyldan hans Kjartans sáu um vöfflubakstur og kaffiuppáhellingar svo að af bar. Við erum þeim sérlega þakklátir * án þeirra hefði ekkert orðið úr þessu.
Ég lýg engu ef ég segi að það hafi varla liðið tvær mínútur samfellt án þess að módel væri í loftinu allan daginn frá hálf ellefu til sex. Stundum voru jafnvel mörg módel í lofti í einu, eins og þegar Guðni og Diddi flugu tveim Big Stikkum saman í hópi tveggja eða þriggja annarra módela.
Klukkan sex var sendagæslu hætt og hver mátti fljúga eins og hann vildi, en þá sagði veðrið stopp, því klukkan hálf sjö rigndi eins og hellt væri úr fötu. Það er ekki ofsögum sagt, að veðrið er alltaf til fyrirmyndar á flugkomunni á Melgerðismelum.
Sjáumst aftur 9. ágúst 2008.
Myndir af Flugkomunni má sjá í myndasafninu.
(Guðjón Ólafsson, formaður FMFA skrifaði.)