Giles G-300

Módel:
Giles G-300
Framleiðandi: Fun-Key Aeroplane Models & Balsawoof Mfr.,Hong Kong http://www.fun-key.com.hk/giles60.htm
Lengd: 1.327 mm
Vænghaf: 1.525 mm
Vængflötur: 44,6 dm²
Þyngd: 3,3 - 3,5 kg
Mótor: .60 - .80 (tvígengis) eða .70 - .90 (fjórgengis)
Fjarstýring: 4 rásir, 5 servó

Inngangur

Þegar ég var búinn að krassa öllu sem ég átti til að fljúga datt mér í hug að fá mér ARF módel (Almost Ready to Fly), byggja það í hvelli og vera tilbúinn til flugs á „nó tæm“ eins og sagt er. Ég hafði samband við þá félaga Kjartan og Bjarna hér á Akureyri (www.flugmodel.is) og þeir sögðu mér að Þröstur Gylfason (www.flugmodel.com) væri um það bil að fá sendingu af flottum módelum. Ég kíkti á síðuna hans og þar var nokkrar flottar flugvélar að sjá. Ein þeirra, Giles G-300, greip mig strax og ákvað að panta hana.

Nú liðu hátt í tvær vikur og í millitíðinni fór ég í sumarfrí suður í Borgarfjörð, en þegar ég kom heim aftur, þá beið þessi líka svaka kassi eftir mér. Hann er STÓR. Þegar ég náði loks lokinu af (tveggja manna verk), þá blasti við hálfsamsett módel og tveir minni kassar. Hverju stykki var pakkað í plast. Skrokkurinn var fallega smíðaður og búið að klæða hann með Oracover filmu í þrem litum, en ekki sjálflímandi áprentaðri filmu. Ég var afskaplega ánægður með það, því að erfitt getur verið að strekkja límfilmuna ef hún slaknar eitthvað. Afgangurinn af módelinu, vængirnir, stélið og stýrin var einnig listavel smíðaður, og plasthjálmurinn yfir stjórnklefann, pakkað inn í mjúkan pappír, var örlítið reyklitaður og að hluta sprautumálaður blár.

Þá var komið að litlu kössunum. Þeir voru límdir fastir í stóra kassann, en eftir smá tog losnuðu þeir líka. Úr öðrum þeirra komu endalausir plastpokar af aukahlutum og út úr hinum kom válarhlífin, hjólahlífarnar og stélkamburinn, allt gert úr trefjagleri og sprautað í þrem litum. Vinnan á trefjaglerinu var greinilega mjög vönduð. Til dæmis var ekki hægt að sjá nein samskeyti utan á þessum hlutum, þó þau væru augljós að innan. Stélkamburinn virtist líka vera styrktur með ræmu af koltrefjum.


Þetta kom uppúr kassanum

Leiðbeiningarnar voru 24 A4 blöð heftuð saman og nú ætlaði ég að gera það sem ég geri venjulega við nýtt módel, setjast niður í þægilegan stól og lesa leiðbeiningarnar þar til ég kann þær utanað. En í þessu tilfelli er það fljótgert. Hver síða inniheldur tvö til þrjú skref í samsetningarferlinu, teikningar til skýringa og stuttan og hnitmiðaðan texta á ensku. Lestur leiðbeininganna er ekki tímafrekur.

Næst fór ég yfir partalistann sem prentaður er fremst í leiðbeiningarnar og komst að því að allt sem er á listanum var í kassanum. En það segir því miður ekki alla söguna eins og fram kemur síðar.

Vængurinn


Servóið fest á lokið

Vængbitinn kominn á sinn stað

Búið að líma vænginn saman á miðjunni

Leiðbeiningarnar segja manni að byrja á vængnum og þar sem þetta er fyrsta NTF (næstum tilbúið til flugs) módelið sem ég set saman, þá ákvað ég að fara nákvæmlega eftir þeim.

Það fyrsta sem maður gerir er að búa til sæti fyrir servóin á lokunum sem koma á vænginn. Ég var afskaplega ánægður með þetta vegna þess að svona vil ég helst ganga frá vængservóum. Inni í vængnum voru líka rör fyrir snúruna í servóin.

Samsetning vænghelminganna reyndist vandasamari en sýndist í fyrstu. Þegar ég renndi bitanum á sinn stað og setti helmingana sama kom í ljós að bitinn var 2mm of langur. Þar að auki passaði hann ekkert sérlega vel á milli vængbitanna: það var of rúmt um hann. Ég tók líka eftir því að bitinn var ekki eins að ofan og neðan, en ekkert er minnst á það í leiðbeiningunum. Eftir að hafa prófað hann í ýmsum stellingum og snikkað millimeter af hvorum enda, límdi ég hann fastan í annan vænghelming og límdi síðan hinn vænghelminginn uppá.

Vænghelmingarnir pössuðu vel saman og nú var komið að því að setja glerfíberborða á samskeytin. Þessi borði fylgir með og maður klippir hann í tvennt og setur ofan og neðan á. Það er ekki filma á samskeytum vængsins að ofan, þannig að þetta er auðvelt verk, en að neðan er þessi flotta bláa filma og hana varð ég að skera í burtu áður en borðinn kom á. Ekkert er minnst á þetta í leiðbeiningunum og mig grunar að einhverntíman hafi glerfíberborðinn verið límdur á plastið. Nú var ég farinn að uppgötva að þetta ARF módel er ekki hannað fyrir þá sem hafa aldrei smíðað flugmódel. Það hjálpaði mér mikið að hafa sett saman fjölda módela frá grunni, þannig að stundum gat ég leyst vandamál sem upp komu af því að ég hafði séð þau áður.

Nú kom eitt stykki uppúr kassanum sem kom mér á óvart, en það var plastpoki með tveim ræmum af Oracover filmu. Megnið af annarri ræmunni fór yfir glerfíber borðann ofan á vængnum og þar með var kominn fallegur og "professional" útlítandi vængur.

Mótorinn

Þetta módel getur tekið mótor frá stærðinni .61 upp í .80 tvígengis eða .70 - .90 fjórgengis, þó mér sýnist á Netinu að menn hafi sett jafnvel stærri mótora í það. Ég ákvað að nota gamla góða OS 61 FSR mótorinn minn. Nú kom að furðulegustu lýsingunum í leiðbeiningunum. Það eru engin merki eða göt á eldveggnum sem geta sýnt manni nokkurn vegin hvar mótorinn á að vera. Með í kassanum fylgdi einhver sú groddalegasta mótorfesting sem ég hef séð, tveir búkkar, breiðir og þykkir. Þar sem ég var búinn að ákveða að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningunum og nota bara það sem fylgir, þá notaði ég þessa búkka. Eftir á að hyggja, þá hefði verið skynsamlegt að skipta þeim út.


Mótorinn staðsettur á eldvegginn

Staðsetning mótors í módelið er alltaf dálítið vandasöm og það er mikilvægt að hann sé á nákvælega réttum stað. Þess vegna er aðferðin sem lýst er í leiðbeiningunum dálítið út í loftið. Maður límir (já, límir) mótorinn á búkkana og staðsetur þá síðan á eldvegginn. Síðan á maður að setja mótorhlífina uppá, færa hana til þar til hún situr fallega og líma hana með límbandi. Síðan átti að staðsetja mótorinn á miðjuna.

Þetta fannst mér heldur ónákvæmt, en eftir að mæla þetta vandlega út og merkja línur á eldvegginn, þá kom í ljós að þetta var líklega eina leiðin til að gera þetta, þó ekki sé hún nákvæm. Þetta tók líka mjög langan tíma, því ég vildi hafa þetta rétt. Það vildi til að mótorinn minn passaði alveg inn í mótorhlífina. Ég ímynda mér að þetta sé erfitt ef maður þarf að skera mótorhlífina til fyrst til að mótorinn komist fyrir í henni.

Festing á mótorhlífinni er líka afara furðuleg, svo ekki sé meira sagt. Það er ætlast til að maður renni henni uppá og festi hana með fjórum skrufum í hliðarnar. Síðan á að beygja tvö augu á vírbút sem fylgir með, hengja hann á mótorbúkkann og síðan festa hann í mótorhlífina. Ég sá fyrir mér að það gæti verið erfitt að fá vírinn í nákvæmlega rétta lengd, þannig að ég hætti við þetta og setti eina skrúfu í viðbót ofan á vélarhlífina til að halda henni á skrokknum.

Þrjár af fimm skrúfum sem halda vélarhlífinni lenda í balsavið, svo þá þurfti að líma litlar krossviðarplötur inn í skrokkinn til að taka við skrúfunum. Það var dálítið "trikkí" að líma þessar plötur vegna þess hvernig skrokkurinn er settur saman þarna framan við vænginn, en með löngum flísatöngum tókst þetta loks.

Vængurinn settur á


Vængurinn boltaður á ...

...og vængpannan límd föst

Þá var komið að því að setja vænginn á skrokkinn. Þetta er mjög vanabundið verk og ekkert sérstaklega erfitt. Það eina sem þarf að ganga úr skugga um er að vængurinn sitji rétt og til þess tekur maður mælingar með tommustokk af vængendunum í stél. Síðan borar maður fyrir vængsboltunum, tekur vænginn af og snittar í harðviðarbita fyrir boltunum. Nú kom upp smá vandamál. Plastboltarnir sem fylgja eru með grófum enskum ¼" - 20 gengjum, en ég á enga þannig snitttappa. Ég á aftur á móti M6 snitttappa og 6mm plastbolta og þetta setti ég í staðinn. Tvær krossviðarplötur voru síðan límdar undir boltahausana.

Þá var komið að vængpönnunni. Hún var samsett og klædd með gulri filmu og átti bara að leggjast á vænginn þar sem hann var skrúfaður fastur á skrokkinn. Þetta reyndist ekki alveg svona einfalt. Lengdin á pönnunni og breiddin var í lagi, en hún passaði engan vegin ofan á bunguna á vængnum. Ég þurfti að skera og pússa og pússa og skera mjög lengi til að fá hana til að sitja. Sem betur fer virtist bara þurfa að auka bunguna í miðjunni, þannig að fram- og afturhlutar pönnunnar pössuðu áfram. Eftir langan tíma sat pannan nokkurvegin rétt og þá gat ég skorið filmuna burt þar sem hún átti að límast og síðan límt hana fasta.

Stélið

Nú kom að því erfiðasta í samsetningunni: stélinu. Stélflöturinn er einfaldur, en kúptur báðum megin, þannig að hann þarf að sitja rétt í stélsætinu. Þetta sæti var aftur á móti í yfirstærð, þannig að maður gat rennt stélfletinum fram og aftur í því. Eftir miklar pælingar fann ég hvernig hann sat best, mældi og kíkti þangað til stélflöturinn sat rétt og límdi hann með epoxílími. Þegar þetta er gert er nauðsynlegt að hafa áfallsmæli (e. incidence meter) til að fá áfallshorn stélflatarins rétt.


Hér sést bilið sem þurfti að loka.

Búið að stilla öllu saman og pússa glerfíberinn niður
að póstinum.

Lamirnar settar í. Athugið tvær sem ég tók úr eigin
safni.

Teinninn í hliðarstýrinu og baulurnar sem ég átti.

Næst kom stélkamburinn og nú varð ég fyrir miklum vonbrigðum. Stélkamburinn er úr glerfíber og afar fallegur. Hann situr á afturhluta skrokksins og stélpósti aftast. Eftir að hafa pússað stélpóstinn til að ofan og stélkambinn að innan, þá sat hann nokkurn vegin rétt á stélfletinum. Hliðarstýrið settist einnig rétt á stélkambinn, en náði nokkra millimetra framfyrir hann. Það varð bara svo að vera og ég ætlaði að líma allt heila klabbið saman með epoxílími. Þá tók ég eftir því að glerfíber kamburinn náði ekki niður á skokkhliðarnar fyrir framan og aftan stélflötinn. Þarna mynduðust stór göt sem hefðu litið illa út. Ég fékk mér afgangs balsa og límdi í götin og setti síðan búta af filmunni sem fylgdi yfir. Nú gat ég límt stélkambinn á.

Þegar epoxíið var orðið hart pússaði ég glerfíberinn þannig að hann var sléttur við stélpóstinn að aftan og setti síðan filmu á póstinn.

Frágangur

Lamirnar sem fylgdu með voru flottar, með þolinmóð í miðjunni og það var létt að líma þær í. Að vísu voru fimm raufar í hvoru hallastýri fyrir lamir, en bara gert ráð fyrir fjórum í leiðbeiningunum. Það endaði því með því að ég varð að nota tvær auka lamir úr safni mínu til að líma stýrifletina á.

Stýrishornin komu líka á óvart. Það fylgdu fjögur horn sem gerð eru úr plastplötum og snittuðum teini, tvö fyrir hallastýrin og tvö fyrir hæðarstýrin. Að auki fylgdi með teinn sem búið var að snitta báðum megin, sem líma átti í hliðarstýrið. Með þessu hefðu átt að fylgja sex baulur til að skrúfast upp á snittteinana, en það fylgdu bara tvær. Í efnislistanum eru bara listaðar tvær baulur, svo að fjöldi þeirra er réttur samkvæmt llistanum, en ekki samkvæmt hornunum. Þetta er galli. Nú varð ég að finna fjórar baulur úr mínu eigin safni. Það tókst, en bara vegna þess að ég er búinn að vera smíða módel í tugi ára og búinn að sanka að mér alls konar dóti. Ef einhver væri að setja þetta módel saman sem þriðja eða fjórða módel, þá myndi hann lenda í vandræðum hér.

Stélhjólið er einfalt og áhrifaríkt, þríhyrnd plastplata og vír beygður í gorm. Stélhjólið límist inn í hliðarstýrið þegar það er sett á.

Hjólastellið er fallegt, sprautað gult og með því fylgja létt svamphjól og hjólskálar. Hjólskálarnar eru festar á einfaldan máta með smá krossviðarbút og skrúfum, en samkvæmt leiðbeiningum er það gert áður en stellið er skrúfað á skrokkinn. Þarna er auðvelt að gera það vitlaust, en ég lét mig hafa það (ætla ekkert endilega að nota hjólskálarnar af því þær eru það fyrsta sem brotnar á svona módeli) og festi þær á og það kom út alveg ágætlega. Enn og aftur kom misræmi á milli þess sem fylgir og þess sem þarf. Hjólin sitja á M4 sexkantboltum sem festir eru upp á stellið með þrem róm hvor. Tvær venjulegar rær þurfa að vera innan í hjólskálinni til að halda hjólinu í réttri afstöðu og ein stoppró fyrir utan. Það fylgdu bara tvær venjulegar rær en ekki fjórar, svo þar þurfti ég að bæta úr.

Stellið er fest á skrokkinn með fjórum boltum og blindróm og nú varð ég hissa, því götin í stellinu voru 3mm en boltarnir 4mm. Ég þurfti að bora stellið út! Síðan var ansi erfitt að koma blindrónum á sinn stað, ég hefði helst þurft einn fingur með tveim eða þrem liðum í viðbót til að koma rónum fyrir. Eftir mikið stímabrak og vesen runnu blindrærnar á sína staði, en það var útilokað að líma þær; gaddarnir í þeim verða bara að duga.

Tankurinn er 520ml, ef til vill ferkar stór fyrir mótorinn minn, en hann passar nákvæmlega í módelið og smá rönd af sílikonlími heldur honum á sínum stað.

Stýringin dettur í módelið eins og ekkert sé, enda nóg pláss. Servóin fara í þartilgerðan krossviðarbakka og tengjast stýriflötunum. Stýristöng með tvöföldum enda fer í hæðarstýrin og hliðarstýrið er tengt með sérlega flottu tog-tog kerfi, sem fylgir. Þegar tengja átti inngjöfina með þar til gerðum vír, þá kom í ljós að hann var ekki nógu langur og ég þurfti að búa til annan úr efni sem ég átti. Hæðarstýrisstöngin náði heldur ekki alla leið og ég þurfti að bæta við hana til að ná inn á servóið. Það er óskiljanlegt hvers vegna framleiðandi á svona flottu módeli getur ekki látið réttar lengdir af vír fylgja með.


Hjólastellið.

Stýrigræjurnar passa vel í allt þetta pláss.

Hljóðkúturinn sem fylgdi OS 61 mótornum gat ekki
gengið og ég fékk annan.

Rennilegt módel á Melunum

Klemmurnar sem fylgja fyrir stýrisstangirnar eru allar úr plasti. Ég hef aldrei verið mjög ánægður með plastklemmur á stýrifleti, en þessar virðast vera nægilega voldugar og á þeim er öryggishringur, þannig að ég ákvað að nota þær. Í venjulegu ári mæli ég með því að klemmur úr málmi séu notaðar á stýrifleti og plast bara notað á mótorinn.

Plasthjálmurinn yfir stjórnklefann er festur með sex skrúfum og aftur þarf að setja krossvið á bakvið vegna þess að þær skrúfast bara í balsaviðinn.

Ég lenti í smá vanda með hljóðkút á mótorinn vegna þess að kúturinn sem fylgir mótornum mínum náði aftur að veggnum sem hjólastellið er fest við. Það hefði kostað meiriháttar uppskurð og vesen að snikka úr þessum vegg, þannig að ég fór á stúfana og fékk að lokum gamlan rússneskan kút sem Kjartan átti. Þessi kútur fór á eftir smá aðgerð og pústar beint niður úr vélarhúsinu eins og á að gera.

Eftir að hafa skoðað Giles G-300 á Netinu ákvað ég að setja ekki alla þessa stóru límmiða á módelið mitt. Ég setti bara þá miða sem hægt er að sjá á flugvél Mörtu Bohm-Mayer, en litir módelsins eru af hennar flugvél. Lítið getur stundum gert meira en mikið og módelið er látlaust og fallegt svona.

Þyngdarpunkturinn kom út nákvæmlega á réttum stað þegar allar græjur voru komnar í. Það eina sem vantaði voru tíu grömm af blýi á annan vængendann. Ég stillti hreyfingar stýra þannig að á lægri stillingu á fjarstýringunni voru þær hreyfingar sem mælt er með í leiðbeiningunum. Ég er enn ekki búinn að vigta módelið, en ég ímynda mér að þyngdin falli innan þess sviðs sem gefið er upp. Þá var ekkert eftir nema að fara út að fljúga.

Samsetning módelsins tók í allt 29 klukkutíma. Þetta er frekar langur tími miðað við að módelið á að vera næstum tilbúið til flugs.

Flug

Enn hef ég aðeins flogið þessu módeli tvisvar, en það virðist vera nokkuð þægilegt að fljúga því og lendingar eru mjúkar og góðar. Mótorinn minn er greinilega alveg í lægri kantinum af stærð og það er lítið af aukakrafti eftir þegar flogið er af stað. Flugið verður þeim mun raunverulegra í staðinn. Ég þarf að gera tilraunir með mismunandi spaða og sjá hvaða áhrif það hefur á flughraða og annað.

Lokaorð:

Rosalega flott módel að sjá og greinilega metnaður lagður í að gera skrokkinn og vængina rétt og bein og fallega klædd. Þó að þetta sé ARF, þá er algerlega nauðsynlegt að hafa sett saman nokkur módel á undan þessu; þetta er módel fyrir þá sem smíða. Nokkrir hönnunargallar og skortur á fylgihlutum draga örlítið úr ánægjunni.

farsælar lendingar

gaui