Fyrir utan spurninguna um hve mikið það kostar að byrja í þessu hobbýi, þá eru algengustu spurningarnar sem maður fær „Hvaða módel ætti ég að fá mér fyrst?“ og „Hvaða módel ætti ég að kaupa næst?“
Byrjandi ætti undantekningalaust að byrja á byrjendamódeli (e. primary trainer). Hvort módelið er smíðað frá grunni eða næstum tilbúið (ARF = Almost Ready to Fly) er algerlega undir flugmanninum sjálfum komið. Ég mæli sterklega með að allir smíði fyrstu flugvélina sína.
Ég tel að flugnám og smíði taki að minnsta kosti þrjú módel. Hvert módel ætti að gera kröfur til flugmannsins og neyða hann til að verða betri flugmaður og smiður. Ef þú ferð eftir ráðleggingum og hefur eðlilega sjón og viðbrögð, þá ættir þú auðveldlega að ná tökum á þessum þrem módelum.
Aftur mæli ég með að þú smíðir þessi módel sjálfur því að handbragðið sem þú lærir við það kemur sér vel þegar þú færir þig á módel sem eru ekki eins auðveld og fyrirgefa engar villur. Að auki, þá geta módel sem ekki eru 100% rétt saman sett aldrei orðið góðar flugvélar. Þú tekur fljótlega eftir því.
Eitt er mikilvægt að hafa í huga: Flottheit er ekki atriði sem hafa ber í huga þegar byrjendamódel er valið. Byrjendamódel eru ljót! Næstu kennslumódel (annað byrjendamódel) eru næstum eins slæm. Þriðju kennslumódel (e. performance trainer) geta verið flott, en það skiptir ekki máli.
Það sem skiptir máli er að þú lærir að smíða og fljúga. Athugaðu að setja ekki litaskema á módelið sem kemur í veg fyrir að þú vitir ekki hvernig það snýr.
Á þessari síðu nefni ég nokkur módel til að læra flug. Skrefin sem tíminn hefur sýnt að þarf að ganga í gegnum eru þessi:
Skref 1 – Fyrsta byrjendamódel
Fyrsta byrjendamódel er háþekja, stöðugt á flugi með þeim eiginleikum að það réttir sig við sjálft. Það ætti að vera eins stórt og heppilegt er – oftast fyrir mótorstærð .40. Það er mikilvægt að það geti rétt sig af sjálft, því þá gerir módelið það þegar byrjandinn sér ekki lengur hvernig það snýr og sleppir stýrunum. Stöðugleikinn kemur af því að vængurinn er hátt á skrokknum og með þó nokkurn aðhalla (e. dihedral).
Æskilegir eiginleikar fyrsta byrjendamódels
Stærsti hluti þungans á módeli er mótorinn, stýritækin, eldsneytið og hjólastellið. Þegar vængurinn er settur hátt, þá er allur þessi þungi undir honum og þá vill módelið helst af öllu fljúga á réttum kili.
Aðhallinn gerir það að verkum að módelið vill fljúga með vængina lárétta. Ef módelinu er hallað og stýrunum síðan sleppt, þá sækir módelið aftur í að fljúga með vængina lárétta.
Flatbotna loftblað (e. airfoil) hvorki bætir eða hindrar stöðugleika. Það hefur hins vegar mikla lyftigetu og heimilar módelinu að fljúga hægar. Á sama hátt krefst samhverft loftblað þess að módelið fljúgi hraðar til að halda hæð. Þess vegna er best að byrjendamódel hafi flatbotna væng því þá getur byrjandinn flogið hægt.
Áfallshorn vængs og stéls, ef þau eru hönnuð rétt, gera það að verkum að módelið reynir sjálfkrafa að fljúga í beina línu án þess að missa hæð. Ef módelið er í dýfu og stýrunum er sleppt, þá réttir það sig við sjálft og heldur hæð.
Athugaðu að orðið „sjálfkrafa“ er notað hér. Það er akkúrat það sem gerir byrjendamódel gott. Það að módelið vill sjálfkrafa fljúga beint og halda hæð og réttir sig við og gerir það ef byrjandinn gerir sjálfur ekki neitt. Þetta gerir að sjálfsögðu ráð fyrir að módelið hafi næga hæð til að rétta sig af, en það getur þurft allt að 50 til 60 metra.
Sem byrjandi ættir þú að þjálfa sjálfan þig í að draga úr inngjöf og setja stýripinnana í miðju um leið og þú skynjar að þú ert að komast í vandræði og ert ekki að stjórna módelinu. Þar sem þú hefur kennara við hliðina á þér, þá ættir þú að segja honum að þú sért í vandræðum vegna þess að það er ekkert víst að hann geri sér grein fyrir því að þú ert ekki að gera þessar flugæfingar viljandi.
Hvers vegna þú ættir að smíða þitt eigið byrjendamódel
Ef þú smíðar þitt eigin byrjendamódel, þá lærir þú grundvallar handbragð á módeli sem er ekki næmt fyrir villum. Byrjendavélar eru yfirleitt yfirsmíðaðar, þannig að þær eru oftast flughæfar þó það sé þó nokkuð af smíðagöllum á þeim.
Ég ætla þó ekki að koma því inn hjá þér að þú eigir að setja vafasama smíð í loftið. Flugmódel geta verið afar hættuleg – jafnvel lífshættuleg. Það eru í raun margar hættur samfara þessu áhugamáli, svo þú skalt fara varlega. Settu öryggið í forgang.
Þar að auki þarf stundum að gera við módel, jafnvel tilbúin módel.Það er mikilvægt að þú vitir hvað er undir
klæðningunni og hvað það gerir. Ef þú smíðar byrjendamódelið þitt, þá færðu grundvallar þekkingu á því hvað er flughæft og hvað ekki þegar kemur að viðgerðum.
Þegar þú ert búinn að smíða fyrsta byrjendamódelið, þá ættir þú líka að vera kominn með nokkur þau verkfæri sem þú þarft til að takast á við það næsta.
Tillögur að fyrsta byrjendamódeli
Ég mæli með þessum módelum sem fyrsta byrjendamódeli:
Hobby Lobby Telemaster 40 | |
Sig Kadet Mark II | |
Sig Kadet Senior | |
Sig Kadet Seniorita | |
Sig Kadet LT 40 | |
(Frá þýðanda) Hér eru þau módel sem hafa verið hvað vinsælust á Íslandi undanfarin ár: | |
Ripmax Trainer 40 | |
Ripmax Nova 40 | |
Thunder Tiger Ready Trainer | |
SKY-40 frá SLEC |
Öll þessi módel eru létt og fljúga frábærlega. Sig Kadet MK II er líklega endingarbest af þeim öllum, en líka þyngst. (Ready 2 er úr plasti og frekar í þyngri kantinum. SKY-40 þarf að smíða alveg frá grunni. þýð.)
Það eru fleiri fyrstu byrjendamódel til og ég hef enn ekki fundið þá byrjendavél fyrir 40 mótor sem ég myndi sérstaklega mæla gegn, en þá er því að mæta að ég hef ekkert sérstaklega verið að leita.
Þegar þú útskrifast af fyrsta byrjendamódeli, þá ættir þú að hafa lært:
- Grundvallar smíðar
- Eiginleka ýmissa efna og líma
- Grundvallar færni í að klæða flugmódel
- Grunn að loftaflsfræði
- Hvernig á að undirbúa módel undir flug og ganga frá því eftir flug ásamt lágmarks viðhaldi
- Stillingar á fjarstýringu og stjórnun
- Meðhöndlun rafhlaða
- Hegðunarreglur á flugstað
- Grundvallar flughæfni, s.s. akstur á jörðu niðri, flug í umferðarhring, aðflug og lendingu og grunn að neyðarreddingum
- Hvernig á að trimma módel svo það fljúgi beint og haldi hæð
- Grundvallar vélarstillingar og viðhald
Skref 2 – annað byrjendamódel
Annað byrjendamódelið er axlarvængja (e. shoulder-wing) sem getur betur flogið listflug betur en sú fyrsta, en er ekki eins stöðug. Þau hafa venjulega væng með hálfsamhverfu loftblaði, sem hjálpar til við stöðugleikann. Sumar miðvængjur geta líka verið góð önnur byrjendamódel, en þú verður að geta séð muninn á sportmódeli og nákvæmnis listflugsvél sem líka er miðvængja.
Axlavængjur, eins og fyrsta byrjendamódel, eru með vænginn ofan á skrokknum, þannig að þyngdarpunkturinn er neðarlega. Ólíkt fyrsta byrjendamódeli, þá hafa þessi módel hálfsamhverf eða samhverf loftblöð, fljúga hraðar og eru ekki eins viljug að rétta sig út úr vandræðum.
Hjólastellið er í aðalatriðum það sama og á fyrsta byrjendamódeli, þ.e. það er fest neðan á skrokkinn frekar en á vænginn. Þau eru ýmist með stél- eða nefhjól eins og flest
fyrstu módel.
Tillögur að öðru byrjendamódeli
Sig Kavalier | |
Sig Mid Star 40 |
Ekki er samt hægt að segja að allar axlarvængjur séu jafnar, og ég hef ekki flogið neinni að nýrri gerðunum, þannig að ég get ekki mælt með þeim. Sumar lágþekjur eru líka góðar, eins og Carl Goldberg Tiger.
Step 3 – Listflugs-æfingamódel
Nú er komið að þeim punkti þegar valið verður erfiðara. Þú ert búinn að setja saman tvö módel og þú átt svo mikið að verkfærum á smíðastofunni þinni að þú getur valið um fjölda módela næst. Þú hefur eytt miklum tíma á flugvellinum og séð margar gerðir módela fljúga. Stundum hefur þú e.t.v. sagt með sjálfum þér „Svona módel langar mig í!“
Flestir okkar komu inn í þetta áhugamál með mótaðar hugmyndir um hvernig flugvél við vildum fljúga, en uppgötvuðumfljótlega önnur módel sem vöktu áhugann. Þú getur varla valið rangt ef þú lætur skynsemina ráða. Þig gæti hugsanlega langað í 3D módel sem hægt er að flengja um allan himininn, en er samt nógu létt til að lendingar verða undir hljóðhraða.
Þig langar hugsanlega til að fljúga nákvæmt listflug á skala módeli eins og Cap, Edge eða Sukhoi. Smíði og flug skala módela fylgir sérstök ögrun og það þarf jafn mikla nákvæmni við að fljúga þeim eins og í listflugi. Þannig módel eru oft þung og í þau hefur verið eytt miklum tíma og peningum.
Sama hvert þú stefnir, þá ætti markmið þitt að vera að bæta flughæfni þína. Núna ættir þú að vera að færast á módel sem er sjálfstöðugt. Það þýðir einfaldlega að það fer þangað sem því er beint og það reynir ekki að rétta sig af. Það eru til fjölmörg módel sem fylla þennan flokk.
Tillögur að listflugs-æfingamódeli
Sig Kougar | |
Sig King Kobra |
Ef þú vilt eitthvað sem getur flogið listflug, en ekki alveg svona vilt, þá skaltu velja eitt af þessum módelum í staðinn:
Sig Somethin’ Extra | |
Sig Astro Hog |
Hér eru vinsæl módel í Evrópu:
Island Hobbies Capiche 50 | |
Graupner Extra 300 | |
Graupner Kwik Fly Mk3 |
Næstum því öll nýleg listflugsmódel henta sem listflugs-æfingamódel, en þú skalt samt spyrjast fyrir um módelin áður en þú velur. Sum módel hafa illilega ofrishrekki sem þú veist hugsanlega ekki um.
Ástæðan fyrir því að það eru næstum eingöngu Sig módel á þessari síðu er sú að það er eitt af fáum fyrirtækjum sem bjóða upp á heilstæða línu módela frá algerum byrjendamódelum upp í sérhæfð módel. Mér hefur alltaf fundist smíðasettin frá þeim vera vel hönnuð og þróuð. Á meðan önnur fyrirtæki hanna flugvél og selja hana ef hún flýgur, þá er greinilegt að þau hafa ekki lagt í mikla þróunarvinnu á bak við módelið og smíðuðu líkast til ekki nema tvær eða þrjár frumgerðir áður en það var markaðssett.
Höfundarréttur © 2002 Paul K. Johnson
Þýtt með leyfi höfundar og staðfært: Guðjón Ólafsson