Módelflug: Kafli 2


VAL Á FJARSTÝRINGU

6-rása stýring
Öflug sex-rása stýring

Fjarstýritæki nefnast einu nafni þau tæki sem stýra flugmódelum með radíóboðum, en þau eru radíósenditæki (TX), radíómóttakari (RX) og stýrisvélar (SERVO).

Í flugvélinni eru rafhlöður fyrir móttakarann en rafhlöður eru innbyggðar í senditækið.

Sendirinn sendir boð til móttakarans um nýja stöðu hverrar stýrisvélar en hann ber boðin síðan saman við stöðu stýrisvélanna og breytir henni ef þörf krefur þar til samræmi er náð.

Í dag eru eingöngu framleidd svokölluð "proportional" (þreplaus) fjarstýritæki, þ.e. stýrisvélin fylgir hreyfingum stýrsstangarinnar, (pinnans) á senditækinu.

Þessi þreplausu fjarstýritæki eru einnig með svokölluðu "trimmi" á öllum aðalrásunum. Trimm (fínstillir) er lítill takki til hliðar við stýrisstöngina og með honum er hægt að breyta miðstöðu stýrisvélanna. Ef vélin leitar stöðugt til annarrar hliðarinnar t.d. vinstri, þá er trimmið á hliðarstýrinu (og/eða hallastýrinu) fært til hægri uns beinu flugi er náð.

Fjarstýritæki fást með mismunandi mörgum rásum. Algengast frá 2 rásum upp í 8 eða 9 rásir. Tveggja rása tækin eru aðallega ætluð fyrir bíla og báta, en eru þó nothæf fyrir einfaldar svifflugur og einföld vélflugmódel. Í svifflugu er með tveggja rása tæki stjórnað hæðarstýri og hliðarstýri, en í vélflugvél hliðarstýri og mótorinngjöf.

Með fjögurra rása tæki má stjórna öllum algengustu stýriflötum flugmódels, sem á vélflugvél eru hæðarstýri, hliðarstýri, og hallastýri ásamt mótorinngjöf. Á byrjendamódeli eru þó oft aðeins notaðar 3 rásir, þ.e. hæðarstýri, hliðarstýri og mótorinngjöf. Með allt að 8 rása tæki er auk þess hægt að stjórna eftirfarandi: uppdraganlegum hjólum, flöpsum, "spoilerum" og blöndustilli á mótor.

4-rása stýring
Fjögra-rása stýring með stýrivélum

Fáanleg eru tæki með mismunandi miklum aukabúnaði, svo sem "dual rate" og "servo reverse". Það fyrra minnkar hreyfingu ákveðinnar stýrisvélar (takki "on") yfir stillanlegt svið, venjulega bæði á halla- og hæðarstýrum óháð en einnig stundum á hliðarstýri (vinstri pinna). Mjög þægilegt er að hafa "dual rate" við vissar flugæfingar, t.d. hæga veltu (slow roll), en þá er hægt að stilla hraða veltunnar svo hann verði hæfilegur (5-6 sek) með pinnann í botni.

"Servo reverse" er ekki síður þægilegt en "dual rate". Ekki skiptir máli hvernig stýrisvélarnar snúa, því að ef í ljós kemur að hreyfing þeirra er öfug, þá er hreyfingunni einfaldlega snúið við með því að ýta til einum rofa á sendinum.

Dýrustu og vönduðustu fjarstýritækin eru auk þessa búin eftirtöldum aukabúnaði:
1. "ATV" (adjustable travel volume) þ.e. hægt er að stilla hreyfísvið hverrar stýrisvélar sjálfstætt í hvora áttina sem vill.
2. Blöndun milli rása, þannig að t.d. er hægt að blanda í senditækinu hreyfingum hæðarstýris og flapsa, hæðar- og hliðarstýris (V-stél), hliðar- og hallastýris, eða flapsa og "spoilera" (lofthemla).
3. Rofar tengdir sjálfvirkum búnaði sem stýrir vélinni í "roll" (veltu), "spinn" (spuna), eða "snaproll" með tímastilli og jafnvel fyrirfram ákveðinni mórorinngjöf.

9- rása stýring
Níu-rása fjarstýring með öllum hugsanlegum fídusum

4. Innbyggt stoppúr með hringjara, svo og snúningshraðamælir til að mæla snúningshraða mótorsins.
5. Flugvélaminni. Tölvukubbur í sendinum skráir allar stillingar á viðkomandi flugvél og man þær eftir það. Ef sendirinn er notaður fyrir aðra flugvél, þá er nýtt minni búið til fyrir hana. Síðan þegar skipt er aftur í fyrri flugvélina, þá er kallað í minnið í sendinum og allar stillingar eru komnar um leið.

Að sjálfsögðu eru einnig fáanleg tæki sérstaklega ætluð fyrir þyrlur með tilheyrandi útbúnaði sem "tail rotor mix", "throttle hold" o.s.frv.

Eins og sjá má er um margt að ræða þegar velja á fjarstýritæki, en æskilegt er þó að velja tæki sem hefur a.m.k. fjórar rásir.

Fjórar rásir eru nægjanlegar fyrir allar byrjendavélar og yfirleitt öll flugmódel, þannig að æskilegt er að velja tæki sem ekki hafa færri rásir. Einnig þarf tækið helst að vera á tíðninni 35Mhz (FM) þar sem hætta á utanaðkomandi truflunum er nánast engin, en á 27Mhz tíðnibandinu eru hinsvegar töluverðar truflanir, aðallega af farstöðvum, svokölluðum CB stöðvum, jafnvel erlendis frá.

Fjarstýringar á 27Mhz bandinu eru yfirleitt töluvert ódýrari en 35Mhz FM stöðvar, en ekki þarf nema eitt óhapp vegna truflunar til að sá sparnaður sé uppurinn og oft vel það. Mikilvægt er einnig að kaupa fjarstýringu af viðurkenndri tegund (vegna gæða og öryggis) og að viðgerða- og varahlutaþjónusta sé fyrir hendi.

Vönduð fjarstýritæki eru góð fjárfesting, þau bila sjaldan og eru betri í endursölu heldur en léleg eða óþekkt tæki.

Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“