Flugkoma FMFA á Melgerðismelum 11. ágúst 2007

Hin árlega flugkoma Flugmódelfélags Akureyrar verður haldin samkvæmt venju á Melgerðismelum helgina eftir verslunarmannahelgina, laugardaginn 11. ágúst 2007. Sendagæsla byrjar kl. 09:00 og stendur til kl. 18:00. Að venju verður boðið upp á einhvejar veitingar fyrir vægt gjald á meðan á flugkomunni stendur og síðan um kvöldið verður gómsætu kjöti skellt á grillið og það síðan borðað (kjötið, ekki grillið) við ljúfan undirleik og athyglisverðar umræður.

panorama-litil.jpg

Allir módelmenn á Íslandi og nágrannalöndum eru boðnir velkomnir.

Í ár verða teknar up tvær nýjungar. Í fyrsta lagi, þá erum við búnir að skipta deginum upp í tímabelti, sem hvert um sig tekur 15 mínútur og úthluta þeim til ákveðinna hópa innan módelgeirans. Það þýðir að viðkomandi módelflug á forgang á þeim tíma og aðrir mega ekki fljúga. Til dæmis eru byrjendur settir á milli klukkan 09:45 og 10:00. Þá er ekki ætlast til að sjóðheitir listflugkappar séu að fljúga á meðan, enda fá þeir sitt tækifæri á öðruim tímum og þá eiga byrjendur ekki að vera að þvælast fyrir. Sama á við um þyrluflugmenn og svifflugugaura.

Ef fljótlega er ljóst að enginn sem hefur forgang ætlar að nýtra sér hann, þá breytist tímabeltið í svokallað „Hvað sem er“, en þá má hvað sem er fara í loftið.

Átta sinnum yfir daginn (á heila tímanum – byrjar kl. 10:00) er sett á sýning. Hér er ætlast til að þeir sem hafa sérlega áhugaverð módel og vilja sýna hvað þau geta, geti pantað sér heilt kortér þar sem enginn annar er að fljúga og munu þá allra augu beinast að viðkomandi. Þetta getur verið listflug á sérlega stórri listflugsvél, samflug tveggja eða fleiri eða hvað annað sem gestunum dettur í hug. Dagskrána má finna neðar á þessari síðu.

Önnur nýjung sem við ætlum að prófa er listflugskeppni fyrir byrjendur. Einu kröfurnar sem gerðar eru í þessum flokki eru þær að viðkomandi flugmaður hafi byrjað að fljúga (eða byrjað aftur eftir langt hlé) fyrir ekki meira en tveim árum. Það þýðir að þeir sem byrjuðu 2005 eða síðar mega taka þátt. Flognar verða tvær umferðir klukkan 13:15 og 16:15. Skráning í keppnina getur farið fram á keppnisdegi, en lokað verður fyrir hana á hádegi. Keppnisæfingarnar eru birtar hér á vefnum.

Flugmódelfélag Akureyrar hlakkar til að sjá flugmódelkappa landsins safnast saman í góða veðrinu á Melgerðismelum.

Nánari upplýsingar varðandi dagskrá Flugkomunnar 2007 og reglur gefur Guðjón Ólafsson, formaður FMFA.

Þessi færsla var birt undir Fréttir. Bókamerkja beinan tengil.