Módelflug: Kafli 4
SMIÐI OG TILKEYRSLA MÓTORA
TILKEYRSLA MÓTORS:
Partar mótorsins |
Áður en hægt er að fá fullan kraft
úr módelhreyflum verður að tilkeyra þá
rétt eins og venjulega sprengihreyfla. Þegar maður
kaupir nýjan bíl er manni ráðlagt að
aka honum varlega fyrstu vikurnar til að vélin nái
að slípa sig almennilega saman. Það sama
gildir um módelhreyfla, nema hvað þeir eru ekki
keyrðir hægt heldur eru þeir látnir ganga
kaldir og eru þessar leiðbeiningar ætlaðar
til þess að segja þér hvernig það
er gert. Þær eru ekki til þess ætlaðar
að segja þér hvernig tilkeyra á einhvern
sérstakan hreyfil, því það er algjörlega
óframkvæmanlegt. Hér er ætlunin að
setja fram ábendingar um það hvernig best er
að fara að til að hægt sé að ná
sem bestum árangri.
Frumskilyrði er að þú vitir hvað allir
einstakir hlutar hreyfilsins eru kallaðir og því
skaltu virða meðfylgjandi mynd vel fyrir þér.
Næst skaltu festa hreyfilinn á 10-15 mm krossviðarplötu,
eins og sýnt er á næstu mynd, ásamt
eldsneytisgeymi, sem látinn er liggja á svampi (til
að minnka titring) þannig að miðlína
geymisins sé á að giska 1-2 cm neðar en
eldsneytis-inntakið í blöndungnum. Þessa
krossviðarplötu má annaðhvort negla á
bekk eða búkka eða festa í skrúfstykki
með sérstöku haldi eins og sýnt er á
myndinni. Það má ALLS EKKI setja hreyfilinn beint
í skrúfstykki. Gott er að hafa stífan
vír í hraðastillinum til að halda loftopinu
opnu.
Þegar allt er tilbúið skaltu fylla geyminn af
tilkeyrslueldsneyti (Long Life). Tvær og stundum þrjár
slöngur eru tengdar við eldsneytisgeyminn. Ein liggur
frá kúlu á endanum á slöngu innan
í geyminum, til inntaksins á blöndungnum. Þessi
kúla gerir það að verkum að hreyfillinn
fær nóg eldsneyti, alveg sama hvernig flugvélin
snýr. Önnur slanga liggur frá röri, sem
sveigt er upp á við og verkar sem yfirfall, upp á
nippil sem oftast er fyrir hendi á hljóðdeyfinum.
Þetta gefur bakþrýsting á geyminn og
sér til þess að hreyfillinn fái allt það
eldsneyti er hann þarfnast. Ef þessi nippill er ekki
fyrir hendi má ekki setja tappa á þessa slöngu.
Þriðja slangan er til þess að fylla á
geyminn og er settur tappi í hana að áfyllingu
lokinni.
Hvernig tilkeyra skal mótor. |
Nú skaltu skrúfa blöndustillinálina
alveg inn og síðan 3-4 snúninga út aftur.
Oftast er eitthvert hak á henni til að betur sjáist
í hvaða stöðu hún er. Síðan
skaltu setja fingur fyrir opið á blöndungnum og
snúa loftskrúfunni hægt rangsælis til
að soga eldsneyti upp í eldsneytisslönguna. Ef
geymirinn er í réttri hæð, rennur þetta
eldsneyti ekki til baka úr slöngunni. Nú skaltu
gefa hreyflinum "snafs", það er gefa honum
nokkra dropa af eldsneyti inn um opið á blöndungnum
eða inn um pústið, beint inn á strokkinn.
Nú skaltu tengja startrafhlöðuna við glóðarkertið
og "heddið" á hreyflinum og snúa loftskrúfunni
snöggt rangsælis. Til að þetta takist sem
best er gott að festa loftskrúfuna þannig á
að þegar hreyfillinn fer að þjappa þá
sé loftskrúfan í sömu stöðu
og vísarnir á klukku þegar hún er fimm
mínútur yfir sjö. Oftast þarf að
snúa nokkuð oft áður en hreyfillinn fer
í gang, þannig að ef þetta tekst ekki í
fyrstu tilraun skaltu ekki hafa áhuggjur, þolinmæði
er það sem þarf. Eftir að hreyfillinn er kominn
í gang skaltu standa fyrir aftan hann til að forðast
að setja hendina í loftskrúfuna ef eitthvað
þarf að stilla.
Stilliskrúfan fyrir hægagang er ekki stillt fyrr
en eftir að búið er að tilkeyra. Það
er gert þannig að hreyfillinn er látinn ganga
hægagang og skrúfan síðan skrúfuð
inn eða út eftir því sem við á
(mjög varlega með löngu skrúfjárni),
þangað til jöfnum og öruggum hægagangi
er náð. Venjulega er þetta þó ekki
gert fyrr en farið er að fljúga, því
mjög er undir ýmsu komið (loftþrýstingi
til dæmis) hvernig þessi skrúfa er stillt.
Einnig getur verið stórhættulegt að stilla
hægaganginn og því vissara að hafa vanan
mann til að gera það fyrir sig.
Þegar búið er að láta hreyfilinn
ganga út af einum tanki má skrúfa stillinálina
örlítið inn (ca 1/8 úr snúningi)
og láta hann ganga aftur. Eftir samtals ca 40-50 mínútna
gang ætti hreyfillinn að vera full tilkeyrður þannig
að hægt sé að láta hann ganga af fullum
krafti og þar með er hægt að fara að fljúga. |