Módelflug: Kafli 5
VÉLFLUG
UNDIRBÚNINGUR FYRSTA FLUGS
Staudacher listfluga |
Engin getur ímyndað sér þá eftirvæntingu
sem fylgir fyrsta fluginu hjá öllum flugmönnum
og einmitt þess vegna er góður undirbúingur
mikilvægur.
Fyrst skulum við yfirfara nokkur atriði og gefa okkur
góðan tíma.
- Var búið að festa allt vel?
- Var mótirinn tilkeyrður og prófaður
á mismunandi hraða?
- Var þyngdarmiðjan örugglega á réttum
stað?
- Eru rafhlöðurnar fullhlaðnar?
- Vinna öll stýrin rétt (líka í
20m fjarlægð án loftnets)?
- Er rétt blanda af eldsneyti tilbúin?
- Er startarinn eða gunguprikið tilbúið?
Ef svör við öllum þessum spurningum eru jákvæð
þá má halda áfram....
- Veljum bjartan dag og lygnan (ekki yfir 2 vindstig).
- Veljum stóra flugbraut þar sem autt svæði
er umhverfis.
- Veljum stað þar sem engar háspennulínur
eru í nánd.
- Tryggjum okkur aðstoö kennara.
- Kynnum okkur að enginn noti sömu senditíðni
og við.
- Verum vel upplagðir og höfum helst allan daginn
fyrir okkur.
FLUGTAK
Þá er bara að setja í gang, aðgæta
stillinálina, stilla flugvélinni upp á miðri
braut móti vindi, aðgæta að enginn sé
fyrir framan, gefa fullt afl og geysast af stað móti
bláum himni... eða hvað..... gleymdist eitthvað?
Jú reyndar, eitt smáatriði, sem sé undirbúningur
flugmannsins sjálfs, hann gleymdist.
ÞAÐ MIKILVÆGASTA
Ef við hefðum ekki reynslu annarra til að byggja
á værum við í miklum vanda með þennan
kafla, og litlar sem engar líkur á að flugvélin
næðist heil til jarðar aftur. Sem betur fer getum
við hagnýtt okkur reynslu færustu flugmanna,
Íslandsmeistara og heimsmeistara en síðast en
ekki síst kennarans okkar. Við getum í huganum
verið búnir að leysa fyrirfram flestar þær
þrautir sem flugvélin leggur fyrir okkur um leið
og hjólin sleppa flugbrautinni.
Hvað svo ef vélin lyftir sér ekki eðlilega
eða flýgur ekki beint? Við réttum ekki bara
kennaranum sendinn og gefumst upp... Nei við skulum velta
fyrir okkur öllum hugsanlegum hrekkjum.
FYRSTU ÞRAUTIRNAR
A) Ef mótorinn stöðvast strax eftir flugtak þá
höldum við beinni stefnu og reynum að lenda á
brautarenda eða á besta stað þar framundan.
B) Ef vélin lyftir sér snöggt og steypist
síðan niður þá reynum við að
lyfta henni snarlega upp, en allar líkur eru samt á
því að flugvélin sé með rangt
stillt hæðarstýri, mótorinn of uppvísandi
eða flugvélin of stélþung.
C) Ef flugvélin klifrar of bratt (meira en 45 gráður)
eru mestar líkur á því að hraðinn
minnki ört, þannig að til að forðast ofris
(stall) verður að stýra nokkuð niður til
að halda eðlilegum flughraða - ekki of snöggt
niður samt. Byrjendum hættir til að ofgera leiðréttingar
þannig að ein ofleiðrétting krefst annarrar
á móti, betra er að byrja smátt og auka
stýringuna eftir þörfum.
D) Ef flugvélin beygir til annarrar hliðar, er einfalt
að rétta hana við meðan hún er á
leið frá okkur.
FRAMHALD
Nú kemur að því að við viljum
taka beygju svo að flugvélin fari ekki úr augsýn.
Þá skulum við gæta þess að lyfta
örlítið nefi vélarinnar með hæðarstýrinu
um leið, því að hún leitar niður
í beygjum. Því krappari sem beygt er, þeim
mun meira leitar vélin niður.
Mjög góð æfing er að fljúga
áttur, þ.e. feril sem næst tölunni átta
í laginu. Hæðin skiptir ekki miklu máli
- og þó, sumir segja að æfa skuli í
tveggja mistaka hæð - en gott er að vera ekki svo
hátt né langt í burtu að erfitt sé
að greina hverja hreyfingu vélarinnar.
Fyrstu tíu flugin a.m.k. fara í æfingar,
kennarinn sér um flugtak og lendingu til að byrja með,
en síðan lætur hann eftir flugtakið og að
síðustu einnig lendinguna.
ÆFINGIN SKAPAR MEISTARANN
Góður kennari gefur nemandanum stuttar leiðbeiningar
meðan fyrstu flugin standa yfir og lætur langar útskýringar
bíða þar til fluginu er lokið, enda þarf
nemandinn á allri sinni athygli að halda og vel það.
Góður nemandi býr sig undir flugið með
því að lesa allt það sem honum dettur
í hug að komi að gagni og spyrja síðan
þegar bókmenntirnar þrýtur.
Eftir að byrjað er að fljúga er bara tvennt
sem dugir, æfing og aftur æfing. |