Módelflug: Kafli 5
VÉLFLUG
ALMENNT UM FLUG
Nokkuð bratt flugtak |
Í byrjun er eitt af því erfiðasta það
að dæma stöðu flugvélarinnar hverju
sinni og hvernig á að beita stýrunum rétt.
Þegar vélin kemur á móti okkur og
við viljum beygja til vinstri (frá okkur séð)
þá stýrum viö til hægri. En stundum
er vélin svo fljót að snúa við, að
við sjáum ekki hvort hún er að koma eða
fara þá stundina og þar dugir ekkert nema einbeiting
og reynsla. Gott er að hugsa sér að vél
sem er að koma til lendingar fari að hallast og við
styðjum undir annan vænginn (í huganum) með
því að færa stýrisstöngina
í áttina að þeim væng (frá
okkur séð) sem er að falla.
En byrjum á byrjuninni.
Flugtak og lending |
Flugtak er einfalt við góð skilyrði, á
réttum hraða fer flugvélin að léttast
og jafnvel hoppa örlítið, þá lyftum
við ögn nefinu þar til brautinni sleppir og gætum
að því að oftast verður að gefa þá
lítillega til baka svo klifrið verði ekki of bratt.
Einnig er gott að ná smá aukahraða í
nesti ef mótorinn skyldi svíkja áður
en nægri hæð er náð, það
skapar svigrúm til athafna ef í illt stefnir.
Ef við stöndum vinstra megin við flugbrautina (horft
í vindátt) beygjum við flugvélinni til
hægri í hæfilegri hæð og höldum
stefnu þvert á brautina stutta stund en beygjum síðan
aftur til hægri og fljúgum samsíða brautinni
undan vindi.
Forðast ber að æfa flug langt undan vindi svo hann
beri vélina ekki mikið af leið ef mótorinn
bregst og svífa þarf inn til lendingar.
Í aðflugi komum við undan vindi í nokkurri
fjarlægð samsíða brautinni, og þegar
flugvélin er komin á hlið við ætlaðan
lendingarstað tökum við ákvörðun
um hversu langt skuli fljúga áður en beygt er
til hægri á þverlegg. Best er að forðast
krappar beygjur og hægja á flugvélinni þegar
hún er komin í aðflugsstefnu (lokastefnu) fyrir
brautina. Gott aðflug tryggir góða lendingu.
Of mikilli hæð má eyða með lengdu aðflugi
eða mjúkum S-beygjum á leið inn til lendingar,
en einnig má steypa vélinni niður í litla
hæð í nokkurri fjarlægð, en það
krefst meiri æfingar þegar að lendingunni kemur
vegna breytilegs aðflugshraða. Við of lítilli
hæð eru fá ráð ef mótorinn
er ekki með. Fyrst er að velja beinustu leiðina að
brautinni, halda síðan stöðugu svifi, forðast
krappar beygjur og lítinn hraða, en geyma að reisa
vélina þar til í lengstu lög eða
rétt um það bil sem hún er að snerta,
- vonandi flugbrautina.
Ef ekki næst inná brautina er fyrsta reglan að
lenda móti vindi til að minnka hraðann, þó
ekki ef til þess þarf mjög krappa beygju í
lítilli hæð. Þegar vélin er lent
slökkvum við á sendinum og göngum af stað
með krosslagða fingur..... |