Módelflug: Kafli 7


FLUGKEPPNI OG LISTFLUG

VÉLFLUGKEPPNIR

LISTFLUG F3A

Listflugvél
Dæmigerð listflugvél með mikla vænghleðslu, sterkan mótor og langan skrokk.

Ekki höfum við flogið mörg flug þegar fiðringur kemur upp í huga okkar um að leika hinar ýmsu kúnstir og æfingar með módelinu, eins og við sjáum hina "vönu" módelflugmennina gera.
Þó að við getum tekið á loft, lent og beygt, þá er það ekki nóg, vængsnið (prófíll) byrjendaflugvélar og listflugvélar eru gjörólík. Vængir byrjendaflugvéla eru yfirleitt flatbotna og eru gerðir fyrir flug á réttum kili, þannig að byggingarlag leiðréttir allar vitleysur sem flugmaðurinn gerir ef pinnanum á sendinum er sleppt. Listflugvélar hafa samhverfa (symmetriska) vængi, þ.e. kúpta beggja vegna, sem leiðrétta ekki flugið þótt pinnanum sé sleppt. Listflugmaðurinn þarf því að stýra módelinu allan tíman sem það er á lofti.

Þegar við förum í fyrsta skiptið að reyna fyrir okkur með æfingar, er best að fá með okkur einhvern sem kann að fljúga og getur verið okkur til halds og trausts því nú verðum við að fljúga á afmörkuðu svæði. Mikið atriði er að gera sér grein fyrir því í upphafi hvaða æfingar á að taka fyrir og hvernig þær líta út.

Gullnu reglurnar í listflugi, og reyndar öllu flugi, er þessar: Fljúgðu aldrei yfir áhorfendum, snúðu baki í áhorfendur og fljúgðu fyrir framan þig, fram og til baka í öruggri hæð og fljúgðu ekki í íbúðabyggð. Gleymdu öllum glannaskap, hann á ekki heima í þessari íþrótt. Módelið þitt getur valdið slysi, jafnvel alvarlegu slysi, ef ekki er farið að öllu með gát; þetta er EKKI BARA LEIKFANG.

Það er mikill munur á því að henda flugvélinni gegnum einhverjar veltur í loftinu eða fljúga skipulegar æfingar. Oft er þó gaman að láta vélina hendast í veltum með því að setja öll stýri í botn (fulla hreyfingu) og hafa mótorinn á mestum snúningi, en hvílík læti, púff. Þetta getur verið ágætt stundum til að fá útrás.

Í listflugi er samspil stýra og mótors mikið atriði svo að mýkt náist í æfingunum og að leiðréttingar sjáist sem minnst.

Listflugvél
Ein glæsileg

Aðgætið að vel sé gengið frá öllu, fjarstýringu, stýrstaumum og að rafhlöðurnar séu nýhlaðnar og byrjum svo á nokkrum undirstöðuæfingum. Sá sem nær tökum á þessum æfingum getur gert hvað sem hann vill

1. Flugtak
Módelið stendur á flugbrautinni með mótorinn í hægagangi, flugmaðurinn eykur afl mótorsins og þegar módelið hefur náð nægum hraða er togað í hæðarstýrið og klifrað í örugga hæð, þó ekki of bratt. Í keppni lýkur flugtaki í 2ja metra hæð. (Fyrstu 2m eru dæmdir, en auðvitað fljúgum við æfingarnar í meiri hæð.) Ef klifrað er á of litlum hraða er hætta á ofrisi og þar með brotlendingu.
2. Aðflugsbeygja (Procedure turn).
Þessi æfing er lárétt flug, 270 gráðu beygja og beint flug til baka. Æfinguna má gera bæði undan vindi og móti vindi og er framkvæmd til að snúa við eftir einhverja af komandi æfingum.
Í beygjunni er módelinu fyrst snúið frá um 90 gráður og síðan til baka 270 gráður og komið til baka í sömu hæð tilbúið fyrir næstu æfingu.
3. Lárétt átta.
Þessi æfingin er ein af grunnæfingum í fluginu og er til bæði lárétt (eins og skrifuð á jörðina), lóðrétt (eins og á vegg) og standandi. Þegar við fljúgum okkar láréttu áttu, eru aðalatriðin þau að flogið er beint undan vindi og þegar módelið er beint fyrir framan okkur beygjum við frá okkur mjúka beygju í hálfhring og síðan í gangstæða átt heilhring, síðan í gagnstæða átt hálfhring og endum á sama stað og við byrjuðum. Aðalatriðið er að halda sömu hæð í báðum hringjum og að þeir séu jafn stórir að þvermáli, eða um 60m.
4. Þrjár veltur (horizontal roll)
Þessi æfing er þrjár láréttar veltur um langás og hefst á láréttu flugi. Ef líklegt er að módelið missi hæð í veltunum, þá má byrja á því að taka örlítið í hæðarstýrið svo módelið fljúgi uppávið í byrjun æfingarinnar. Ýmist er flogið undan vindi eða móti vindi, en betra undan vindi með fullu mótorafli. Módelið á að ná þrem veltum á 5 sekúndum og vera á hvolfi í annarri veltu beint fyrir framan flugmanninn. Við gerum þessa æfingu með því að beita hallastýrunum til vinstri eða hægri, en þegar módelið er á hvolfi þá er hæðarstýrum beitt niður til að halda nefinu í láréttri stöðu. Þó skal varast að beita hæðarstýrinu of mikið því þá verður veltan öll skrikkjótt.
Gerið þessa æfingu fyrir framan ykkur (ekki yfir) því þannig sést best hvort flugið er lárétt því æfingunni á að ljúka í sömu hæð og hún hófst.
5. Immelmann
Æfing þessi er sett saman úr tveim æfingum, önnur er lykkja (loop) en hin er velta (roll). Úr láréttu flugi er togað í hæðarstýrið þar til flugvélin er á hvolfi og stefnir í gagnstæða átt, þá er gerð hálf velta og haldið hæðinni þannig komið á rétta kjöl. Æfingin er gerð með fullu mótorafli.
6. Innykkja (inside loop)
Innlykkja er æfing sem hefst í láréttu flugi beint fyrir framan flugmanninn. Togað er rólega í hæðarstýrispinnann og flogið í stórann lóðréttan hring, upp og yfir toppinn en síðan minnkað átakið á hæðarstýrinu og minnkað mótorafl á leiðinni niður til að halda sem bestum hringferli.
7. Ofrisbeygja (stall turn - hammerhead)
Listflugvél
Knifedge = upp á rönd = randaflug
Æfingin lítur í stuttu máli út þannig að flogið er úr láréttu flugi á fullu afli og síðan lóðrétt upp, dregið úr afli, módelið ofrís og snýr við þannig að stefnan er beint niður en síðan er flogið í láréttu flugi út í sömu hæð og byrjað var.
Ofrisbeygja er ein af þeim æfingum sem líta út fyrir að vera einfaldar, en það er vandi gera þessa æfingu fallega þannig að ekki verði rykkir og skrikkir.
Við byrjum með beinu láréttu flugi framhjá þeim stað sem við stöndum í um 30m fjarlægð, togum í hæðarstýrið og fljúgum beint upp. Í klifrinu er dregið úr mótoraflinu en þegar módelið hægir á sér, er gefið fullt hliðarstýri (vinstri eða hægri) þannig að módelið beygi frá flugmanninum og falli síðan beint niður. Flogið er út úr þessari æfinu í sömu hæð og hún hófst.
Flugvélin verður að fara lóðrétt upp, því annars er hætta á að hún fari fram eða afturfyrir sig þegar dregið er úr mótorafli. Notið halla og hliðarstýri til að leiðrétta lóðrétta flugið.
8. Umferðarhringur
Umferðarhringurinn hefst á því að flogið er lárétt beint yfir flugbraut framhjá flugmanni móti vindi ca. 100 m, þá er tekin 90 gráðu beygja með hallastýrinu og haldið hæð með hæðarstýrinu með því að toga örlítið í það og þá erum við með vindinn á hlið og fljúgum beint ca 60m. Tekin er önnur 90 gráðu beygja, flogið undan vindi og minnkað mótoraflið þannig að flugvélin lækkar sig. Þessari stefnu er haldið ca. 200 m en þá er tekin þriðja beygjan og vindurinn hafður á hlið. Við hægjum á vélinni með því að toga í hæðarstýrið en varast ofris og síðasta beygjan er nú tekin þannig að við erum á lokastefnu.
Hæðarstýrið er notað til að ákvarða aðflugshornið, en halla og hliðarstýrin til að halda stefnu þannig að við ættum að geta lent á fyrirfram ákveðnum stað.
9. Marklending (spot landing)
Lending hefst í tveggja metra hæð úr aðflugi, hallastýri er notað til að halda vængnum láréttum og nú notum við samspil mótororku og hæðarstýris til að lenda.
Í marklendingu eru útbúnir hringir með 15 og 30m þvermáli, módelið má ekki hoppa (búmsa) í lendingu og síðan er módelinu ekið í burtu.

Þegar þessar æfingar eru orðnar auðveldar, þá má skoða fleiri og erfiðari æfingar í FAI Sporting Code, sem hægt er að nálgast á vef flugmódel.is.

Til bakaEfnisyfirlitÁfram
Úr „Módelflug“