Módelflug: Kafli 6
SVIFFLUG
HÁSTART
UM MÓDELIÐ:
Til eru margar gerðir af hástart-svifflugum en allar
eiga þær það þó sameiginlegt
að hafa vængsnið sem gefur gott lift. Algengasta
vænghaf á hástart-módelsvif-flugum
er á bilinu 2,20 - 3,00 metrar en til eru þó
módelsvifflugur með vænghaf sem er um og yfir
fimm metrar. Módelin hafa sömu stýrifleti og
vélflugur en þó eru þær oft búnar
loftbremsum (spoilerum) til þess að minnka lyftikraftinn
ofan á vængjunum og gera þar með lendingar
auðveldari. Einnig koma þeir sér vel ef dýfa
þarf módelinu og koma þá í veg
fyrir að módelið auki hraðann um of.
STARTÚTBÚNAÐUR:
Algengustu aðferðir við að koma svifflugum á
loft eru teygja, spil og hlaupalína.
Teygjustart
Spilstart
Hlaupalína |
- TEYGJA:
- Teygjan er þannig útbúin, að sett
er saman ca. 30 metra slanga eða gegnheilt gúmmí
og ca. 100 metra nylon-gyrni með krók og fallhlíf
á endanum. Síðan er teygjan fest rækilega
með góðum hæl í jörðina
og lögð út. Þá er hún strekkt
ca. 60-100 skref eftir gerð teygjunnar, stærð
módelsins og vindi.
- Síðan er módelið fest á krókinn
á nylon-gyrninu og sent á loft með því
að sleppa því úr hendi sér. Síðan,
þegar módelið hefur náð fullri hæð,
er því sleppt og þá opnast fallhlífin
og línan svífur undan vindi til jarðar.
- Notkun á teygjum er lang algengasta staraðferðin
hérlendis.
- SPIL:
- Spil er sérstaklega hentugt við start á
stórum módelum. Spilið er yfirleitt þannig
gert að rafmótor er tengdur við hjól með
línu á og er það staðsett við
hliðina á flugmanni. Síðan hefur flugmaðurinn
fótstig til þess að stjórna hve hratt
er dregið inn á spilið. Línan er dregin
út í gegn um trissu sem er í ca. 200 metra
fjarlægð frá spilinu og er síðan
leidd til baka í áttina að spilinu. Krókur
og fallhlíf eru á endanum á línunni
og þar er módelinu krækt í þannig
að flugmaðurinn getur haft fulla stjórn á
spilinu.
- HLAUPALÍNA:
- Hlaupalínan er fest niður á jörðina
nálægt þeim stað þar sem taka á
svifflugu á loft. Síðan liggur línan
í gegnum tryssu í ca. 200 metra fjarlægð,
sem einhver góður hlaupari heldur á og síðan
aftur í sviffluguna. Þar er líka hafður
krókur og fallhlíf eða flagg og þegar
flugmaðurinn er tilbúinn til flugtaks þá
gefur hann merki til hlauparans sem verður þá
að hlaupa eins og fætur toga.
UNDIRBÚNINGUR FLUGS:
Þegar komið er á flugsvæði ber svifflugmönnum
að hafa samráð við aðra, sem eru ef til
að fljúga vélflugum, hvar koma skuli fyrir startútbúnaði.
Eftirfarandi miðast við að notuð sé teygja.
Best er að koma teygjunni þannig fyrir að hún
sé ekki á því svæði þar
sem flogið er vélflugu. En ávallt skal koma
teygjunni þannig fyrir að flugtak fari fram beint upp
í vindinn. Það er ágæt regla að
koma teygjunni fyrir áður en módelið er
sett saman, vegna þess að oft getur verið vindstrekkingur
og er þá komið í veg fyrir að módelið
fjúki um koll á meðan. Þegar búið
er að setja módelið saman, ættu menn alltaf
að prófa öll stýri og athuga hvort þau
virka eðlilega. Eins getur verið ágætt að
skutla módelinu einu sinni áður en það
er tekið upp í teygjunni og þá gefst tími
til að fara yfir trimmin (fínstillingarnar). Þegar
hér er komið sögu ætti allt að vera
klárt til að strekkja teygjuna. Við höfum
áður talað um að eðlilegt væri að
strekkja teygjuna 60-100 skref. Þetta verður hver og
einn að meta hverju sinni. Ráðlegt er þó
að strekkja hana minna í byrjun og færa sig síðan
upp á skaftið. Ef menn eru með módel af
minni gerð og ofstrekkja teygjuna er hætta á
skjálfta (flutter) og þá er erfitt að
stjórna vélinni í teygjunni um leið og
hættan eykst á að brjóta vængina.
FLUGIÐ:
|
Nú gefum við okkur að allt sé klárt,
módelið í lagi og teygjan strekkt. Er þá
eitthvað eftir? Jú, menn skulu ávallt hafa það
REGLU NÚMER 1 AÐ KRÆKJA TEYGJUNNI ALDREI Í
MÓDELIÐ FYRR EN KVEIKT HEFUR VERIÐ Á MÓTTAKARANUM
á vélinni og á sendinum. Það er
meiri hætta á að menn gleymi þessu í
svifflugi en í vélflugi, vegna þess að
það er enginn mótor sem minnir mann á.
Á þessu stigi er allt tilbúið. Aðstoðarmaður
eða flugmaður sjálfur heldur á módelinu
og þá skulu menn enn einu sinni athuga hvort öll
stýri hreyfist eðlilega. Þá er módelinu
sleppt. Það er nóg að sleppa því,
EKKI KASTA, og halda því örlítið
upp á við. Ef góður vindur er, þarf
yfirleitt ekki að taka mikið í hæðarstýrið
en aftur meira ef vindur er lítill. Ef módelið
er of reist í teygjunni er hætta á að
það ofrísi og verður þá að
ýta pinnanum fram. Ef módelið leitar út
til hliðanna verður að nota hliðarstýrið
til að rétta það af en í þannig
tilfellum virka hallastýrin alls ekki. Þegar módelið
hefur náð fullri hæð er því
sleppt úr teygjunni, annaðhvort með sleppikrók,
eða módelinu dýft fram og síðan tekið
í hæðarstýrið og þá losnar
það. Oft flýgur þó módelið
sjálfkrafa úr teygjunni. Þegar módelinu
hefur verið sleppt þarf að "trimma" (stilla)
öll stýri þannig, að það fljúgi
beint. Trimming á hæðarstýri fer svolítið
eftir vindstyrk. Ef vindur er lítill þá þarf
yfirleitt að trimma hæðarstýrið þannig
að módelið leiti upp, en öfugt ef vindur er
meiri. Þá ætti allt að vera tilbúið
til þess að glíma við mest spennandi þáttinn
í módelsviffluginu en það er leitin að
hitauppdtreymi (bólu) eða bylgju.
|
Bóla (hitauppstreymi eða termal) myndast þegar
heitt loft streymir upp frá jörðinni og er það
einkum á sólríkum dögum. Bólu
getur verið best að finna t.d. yfir hrauni og jafnvel
mosa, þ.e.a.s. þar sem jörðin er dekkst.
Bylgja skapast aftur við þær aðstæður
þegar vindur leitar niður fjallshlíðar og
streymir síðan upp aftur. Í báðum
tilvikum er hægt að ná góðri hæð.
Hér verður ekki gerð nein tæmandi úttekt
á flugi við þessar aðstæður, en
þó skal þess getið að ef módelið
svífur vel og flýgur mjög stöðugt
en tekur allt í einu smá kipp þá er
líklegt að það sé að nálgast
bólu. Þá er tekið örlítið
í hæðarstýrið og síðan
er flogið í 2-3 hringi. Þá er líklegt
að módelið sé farið að nálgast
miðju bólunnar og ætti þá að
vera hægt að ná góðri hæð
og löngu flugi. Gætið þess þó
ávallt að fara ekki svo hátt að erfitt geti
verið að sjá módelið. Þegar lækka
á flugið er best að setja á hemla (spoilera)
og láta módelið þannig síga niður.
Ef ekki eru hemlar, þá er best að taka módelið
niður í spíral, við það minnkar
hættan á að módelið fari á
of mikla ferð. Þegar komið er í mátulega
hæð, sem þýðir að hægt sé
að fara einn umferðarhring, er rétt að huga
að lendingu. Það getur verið góð
æfing að lenda á móti sér vegna
þess að í hástartkeppnum eru gefin lendingarstig
og þá getur verið mjög gott að miða
módelinu beint á lendingarpunktinn. Þegar
módelið er á lokastefnu getur verið þægilegt
að hafa hemla og gerir það kleift að koma inn
til lendingar í mun meiri hæð og brattar inn
en ella. Þetta á þó sérstaklega
við um stærri og hraðfleygari módel. Hæðina
á lokastefnu verður þó ávallt að
miða við hvert einstakt módel því
að rennigildið getur verið mismunandi. |